Óheppilegt Magnús Guðmundsson skrifar 3. janúar 2018 07:00 Nýr Landsréttur tók í starfa í gær í skugga þess að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra braut lög við skipan dómara við réttinn samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar. Sigríður er reyndar ekki sammála dómi Hæstaréttar en ætlar að bregðast við niðurstöðunni með því að setja reglur innan dómsmálaráðuneytisins sem taka á málum sem þessum. Það er reyndar umhugsunarefni hvort ráðherrar séu almennt best til þess fallnir að setja sér og ráðuneyti sínu starfsreglur fremur að en slíkt sé unnið af óháðum aðilum. Árið 2010 var reyndar þrengt að valdi ráðherra til að skipa dómara, gagngert til þess að koma í veg fyrir að ráðherra láti sér- eða flokkshagsmuni ráða för á kostnað almannaheilla, en eitthvað virðist það hafa farið framhjá dómsmálaráðherra. Vinnubrögð á borð við þessi eru oftar en ekki kölluð „óheppileg“ í íslenskum stjórnmálum. Ef að er gáð er fjöldi óheppilegra vinnubragða eða atvika í íslenskri stjórnsýslu, sem á stundum kosta samfélagið stórfé, reyndar með ólíkindum. Þannig virðast íslenskir ráðamenn t.d. vera langtum óheppnari í störfum sínum en starfsbræður þeirra og -systur á Norðurlöndunum og það jafnvel svo að ástæða gæti verið til að kanna með vísindalegum hætti hvað veldur. En svo við höldum okkur við heimahagana og tilvikið sem hér um ræðir þá er óheppilegt að ríkið þurfi að greiða tveimur umsækjenda um dómarastöður við Landsrétt miskabætur vegna málsins. Það er líka óheppilegt fyrir hinn nýja Landsrétt að vera settur með þessi óheppilegu vinnubrögð ráðherra í farteskinu. Það fólk sem þar starfar og þá ekki síst dómararnir við réttinn er eflaust prýðisfólk og þeim mun fremur þarf það ekki á því að halda að efasemdafræjum sé sáð með svo óheppilegum hætti. Því ef það er eitthvað sem slík stofnun þarf á að halda í veganesti er það að njóta trausts og virðingar almennings. Viðbrögðin við þessari óheppilegu ákvörðun Sigríðar Á. Andersen hafa verið á ýmsa vegu. Sumir hafa lagt áherslu á hversu óheppilegt þetta sé fyrir Sigríði, ríkisstjórnina og Landsrétt. Aðrir, eins og til að mynda Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, eru svo á þeirri skoðun að Sigríður eigi að segja af sér þar sem hún hafi meðvitað tekið þá ákvörðun að fara á svig við lög við meðferð málsins. En það er þó rétt að halda því til haga að innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er einhugur um að fara betur ofan í saumana á málinu og vissulega gæti afrakstur þess orðið forvitnilegur. Hvort niðurstaðan verður heppileg eða óheppileg verður tíminn að leiða í ljós. Því það sem er raunalegast, og oftar en ekki ástæðan fyrir óheppni íslenskra ráðamanna, er auðvitað ekkert annað en þaulsetan. Til þess að endurheimta traust og virðingu landsmanna þurfa viðkomandi nefnilega að finna það hjá sér að stíga til hliðar í kjölfar óheppilegra og ólögmætra ákvarðana. Í framhaldinu getur svo viðkomandi átt greiða endurkomuleið með hreint borð og notið þess trausts sem íslenskt samfélag þarf svo sárlega á að halda.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. janúar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun
Nýr Landsréttur tók í starfa í gær í skugga þess að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra braut lög við skipan dómara við réttinn samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar. Sigríður er reyndar ekki sammála dómi Hæstaréttar en ætlar að bregðast við niðurstöðunni með því að setja reglur innan dómsmálaráðuneytisins sem taka á málum sem þessum. Það er reyndar umhugsunarefni hvort ráðherrar séu almennt best til þess fallnir að setja sér og ráðuneyti sínu starfsreglur fremur að en slíkt sé unnið af óháðum aðilum. Árið 2010 var reyndar þrengt að valdi ráðherra til að skipa dómara, gagngert til þess að koma í veg fyrir að ráðherra láti sér- eða flokkshagsmuni ráða för á kostnað almannaheilla, en eitthvað virðist það hafa farið framhjá dómsmálaráðherra. Vinnubrögð á borð við þessi eru oftar en ekki kölluð „óheppileg“ í íslenskum stjórnmálum. Ef að er gáð er fjöldi óheppilegra vinnubragða eða atvika í íslenskri stjórnsýslu, sem á stundum kosta samfélagið stórfé, reyndar með ólíkindum. Þannig virðast íslenskir ráðamenn t.d. vera langtum óheppnari í störfum sínum en starfsbræður þeirra og -systur á Norðurlöndunum og það jafnvel svo að ástæða gæti verið til að kanna með vísindalegum hætti hvað veldur. En svo við höldum okkur við heimahagana og tilvikið sem hér um ræðir þá er óheppilegt að ríkið þurfi að greiða tveimur umsækjenda um dómarastöður við Landsrétt miskabætur vegna málsins. Það er líka óheppilegt fyrir hinn nýja Landsrétt að vera settur með þessi óheppilegu vinnubrögð ráðherra í farteskinu. Það fólk sem þar starfar og þá ekki síst dómararnir við réttinn er eflaust prýðisfólk og þeim mun fremur þarf það ekki á því að halda að efasemdafræjum sé sáð með svo óheppilegum hætti. Því ef það er eitthvað sem slík stofnun þarf á að halda í veganesti er það að njóta trausts og virðingar almennings. Viðbrögðin við þessari óheppilegu ákvörðun Sigríðar Á. Andersen hafa verið á ýmsa vegu. Sumir hafa lagt áherslu á hversu óheppilegt þetta sé fyrir Sigríði, ríkisstjórnina og Landsrétt. Aðrir, eins og til að mynda Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, eru svo á þeirri skoðun að Sigríður eigi að segja af sér þar sem hún hafi meðvitað tekið þá ákvörðun að fara á svig við lög við meðferð málsins. En það er þó rétt að halda því til haga að innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er einhugur um að fara betur ofan í saumana á málinu og vissulega gæti afrakstur þess orðið forvitnilegur. Hvort niðurstaðan verður heppileg eða óheppileg verður tíminn að leiða í ljós. Því það sem er raunalegast, og oftar en ekki ástæðan fyrir óheppni íslenskra ráðamanna, er auðvitað ekkert annað en þaulsetan. Til þess að endurheimta traust og virðingu landsmanna þurfa viðkomandi nefnilega að finna það hjá sér að stíga til hliðar í kjölfar óheppilegra og ólögmætra ákvarðana. Í framhaldinu getur svo viðkomandi átt greiða endurkomuleið með hreint borð og notið þess trausts sem íslenskt samfélag þarf svo sárlega á að halda.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. janúar.