Bandaríski þáttastjórnandinn og leikkonan Oprah Winfrey er sögð alvarlega íhuga framboð til embætti forseta Bandaríkjanna árið 2020 að því er CNN hefur eftir tveimur „nánum vinum“ hennar.
Winfrey varð í nótt nótt fyrsta svarta konan til að hljóta Cecil B. DeMille-verðlaunin á Golden Globe-hátíðinni. Þakkarræða hennar var tilfinningaþrungin og innblásin af MeToo-byltingunni sem hófst með frásögnum kvenna sem starfað hafa í Hollywood af kynferðisofbeldi og áreitni kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.
Ræðan hefur vakið mikla athygli í dag og hefur myllumerkið #WinfreyObama2020 dreist eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum þar sem Winfrey er hvött til þess að bjóða sig fram til forseta þegar kosið verður árið 2020.
Heimildarmenn CNN segja að nánir samstarfsmenn hennar hafi á undanförnum vikum og mánuðum hvatt hana til þess að bjóða sig fram og er hún sem fyrr segir sögð vera alvarlega að íhuga framboð. Í frétt CNN segir að frægð og ríkidæmi Winfrey myndi án efa gera hana að sterkum frambjóðanda fyrir demókrata en óljóst sé þó hvort að Bandaríkjamenn gætu hugsað sér að kjósa sjónvarpsstjörnu sem forseta tvisvar í röð.
Athygli vekur þó að Winfrey hefur áður útilokað að hún myndi bjóða sig fram í kosningum, síðast í desember á síðasta ári.
„Ég mun aldrei sækjast eftir opinberu embætti,“ sagði Winfrey þá í viðtali við Hollywood Reporter.
Hún hefur þó nægan tíma til þess að ákveða sig en ólíklegt er að formleg kosningabarátta þeirra sem ætla að bjóða sig fram fyrir demókrata hefjist fyrr en eftir þingkosningar í Bandaríkjunum, sem haldnar verða í nóvember.
Oprah Winfrey sögð alvarlega íhuga forsetaframboð

Tengdar fréttir

Oprah Winfrey stal senunni á Golden Globe með tilfinningaþrunginni ræðu
Bandaríski þáttastjórnandinn og leikkonan Oprah Winfrey varð í nótt fyrsta svarta konan til að hljóta Cecil B. DeMille-verðlaunin á Golden Globe-hátíðinni en um er að ræða heiðursverðlaun hátíðarinnar.

Golden Globe 2018: Sigurvegarar næturinnar
Golden Globe verðlaunahátíðin fór fram í 75. skipti með pompi og prakt í Beverly Hills í Los Angeles í nótt.