
Pólitísk skilaboð
Við lok ársins 2016 voru pólitísk skilaboð farin að láta á sér kræla og urðu þau enn meira áberandi nú á árinu. Tískuhús eins og Christian Dior, Prabal Gurung og Missoni vöktu athygli á réttindum kvenna og feminisma, sem urðu síðan áberandi og mikilvæg málefni þegar leið á árið.

Köflóttir jakkar voru mjög vinsælir þetta árið og voru annaðhvort notaðir stakir eða með buxum í stíl. Stóru tískuhúsin voru með sínar útgáfur og voru aðrar verslanir ekki lengi að fylgja eftir. Köflótt mun halda áfram fyrir næsta sumar, en það verður stærra og litríkara í sniðinu.

Rauður litur var mjög áberandi á árinu, hvort sem það var í sumarfatnaði eða í þykkum vetrarkápum. Rautt var notað frá toppi til táar og fjölmargir hönnuðir notuðu rautt í fatalínum sínum, eins og Max Mara, Bottega Veneta og Christopher Kane.

Það þykja stórtíðindi þegar tískuhús á borð við Gucci hættir að notast við alvöru loð, en loðbannið mun taka gildi á næsta ári. ,,Alvöru loð er ekki nútímalegt, það er að detta úr tísku,” sagði Alessandro Michele, listrænn stjórnandi Gucci þegar hann var spurður út í ákvörðunina. Áhugavert verður að sjá hvort fleiri tískuhús feti í fótspor Gucci á nýju ári.