Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins, segir að Nígeríumenn þurfi að varast Gylfa Þór Sigurðsson í leik liðanna á HM 22. júní á næsta ári.
„Ég myndi segja að Gylfi sé besti liðsmaður sem ég hef unnið með, ásamt Henrik Larsson,“ sagði Lars við Score Nigeria.
„Hann spilar alltaf fyrir liðið og er einn af bestu alhliða miðjumönnunum í bransanum.“
Lars þekkir ekki bara íslenska liðið vel því hann var landsliðsþjálfari Nígeríu 2010 og stýrði nígeríska liðinu á HM í Suður-Afríku. Hann stýrði einnig sænska landsliðinu á tveimur heimsmeistaramótum. Lars er landsliðsþjálfari Noregs í dag.
