Hinn umdeildi Vitaly Mutko hefur stigið niður sem yfirmaður skipulagsnefndar HM í Rússlandi að því er fram kemur í rússneskum fjölmiðlum í dag.
Þessi tíðindi koma aðeins tveimur dögum eftir að hann steig tímabundið niður sem formaður rússneska knattspyrnusambandsins.
Það er samt nóg að gera væntanlega hjá Mutko enda er hann varaforsætisráðherra og hann hefur einnig verið íþróttamálaráðherra Rússlands.
Mutko er sagður hafa verið aðalmaðurinn á bak við skipulagt lyfjasvindl Rússa en því hefur hann alla tíð neitað.
Að þessi umdeildi maður hafi verið með puttana í skipulagi HM hefur verið mjög umdeilt en brotthvarf hans ætti að róa einhverjar óánægjuraddir.

