Samstæð sakamál IV Þorvaldur Gylfason skrifar 14. desember 2017 07:00 Eftir hrunið 2008 varð fljótlega ljóst að þv. ríkisstjórn vildi ekki að erlendir aðilar kæmu að rannsókn málsins. Ég lagði það til í ræðu minni á borgarafundi í Háskólabíói 24. nóvember þá um haustið að óvilhallir útlendingar yrðu hafðir með í ráðum við rannsóknina og aftur í einkasamtali við ráðherra. Ég varð þess áskynja að við þetta var ekki komandi. Ég var ekki einn um þessar áhyggjur. Jónas Kristjánsson ritstjóri skrifaði tæpu ári síðar, 28. september 2009, undir yfirskriftinni Vel tengdur glæpalýður: „Erlendir ráðamenn efast um, að Ísland geri upp sakirnar við glæpalýðinn, sem rústaði fjárhag og áliti landsins. Gera ráð fyrir, að sannleiksnefndin fræga stundi kattarþvott. Taka eftir, að enginn glæpamaður hefur verið settur inn, ekki einu sinni yfirmenn IceSave og Landsbankans. Ísland er talið vera eins konar mafíuríki, þar sem vel tengdur glæpalýður sleppur billega frá ofursyndum sínum. Samt er Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur formlega við völd. En hann ræður enn embættum og dómstólum og lögreglu og skilanefndum og sannleiksnefnd. Pólitíkin er máttvana, jafnvel þótt hér sé vinstri stjórn.“Erlend skrif um Ísland Bakgrunnur þessara áhyggna Jónasar Kristjánssonar og margra annarra var m.a. fréttaflutningur erlendra fjölmiðla um Ísland, en landið hafði fram að hruni ekki verið í alfaraleið heimspressunnar. Hrunárið 2008 brá svo við að Financial Times í London birti 250 greinar um Ísland, Globe and Mail í Torontó birti 170 greinar, Guardian sem var áður kennt við Manchester og er nú heimsblað 130, Le Monde í París 110 og New York Times 75. Þessar tölur eru sóttar í bók eftir kanadíska prófessorinn Daníel Chartier frá 2011, The End of Iceland's Innocence: The Image of Iceland in the Foreign Media during the Financial Crisis. Erlendir fjölmiðlar (og innlendir!) fjölluðu m.a. um grunsemdir um að íslenzkir bankar hefðu stundað fjárböðun fyrir rússnesku mafíuna og um tilraun þv. ríkisstjórnar og Seðlabankans til að komast hjá að þiggja aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með því að taka heldur risalán hjá Pútín Rússlandsforseta. Grunsemdirnar um Rússatengslin eru enn á sveimi m.a. vegna þess að Ísland kann að koma við sögu í rannsókn bandaríska saksóknarans Roberts Mueller á tengslum Trumps forseta og manna hans við Rússa, þ. á m. dæmda menn og mafíósa. Þetta er samt ekki allt. Fyrir liggur að miklu fé var mokað út úr bönkunum í miðju hruni, bæði mánudaginn 6. október 2008 eins og leknu gögnin sem Stundin birti frá skilanefnd Glitnis vitna um og lögbann var lagt á fyrir nokkru og jafnvel einnig þriðjudaginn 7. október eins og Robert Wade, prófessor í London School of Economics, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í Háskóla Íslands, hafa lýst í erlendu tímariti (New Left Review, september/október 2010, bls. 22). Þau skrifa [mín þýðing, ÞG]: „Meðan krónan var í frjálsu falli, gjaldeyrisforðinn var á þrotum og engar hömlur öftruðu útstreymi fjármagns, var gengið fest í fáeinar klukkustundir; þetta var e.t.v. stytzta fastgengisskeið sem sögur fara af. En það var nógu langt til þess að vel tengdir innherjar gátu fært fé sitt úr krónum yfir í gjaldeyri á miklu hagstæðara gengi en þeim myndi bjóðast síðar. Heimildir innan bankanna herma að milljarðar hafi flúið krónuna þessar klukkustundir. … Síðan var krónan sett á flot – og hún sökk eins og steinn.“Virðing Alþingis Ótti við hvítþvott af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis reyndist ekki réttur. Nefndin skilaði góðu verki á heildina litið. Hitt er þó rétt að RNA tók á hvorugu málinu sem lýst er hér að framan, hvorki meintri fjárböðun fyrir Rússa né meintum mokstri fjár vel tengdra manna út úr bönkunum og út úr landinu í miðju hruni meðan venjulegt fólk sat eftir með sárt ennið og sumir misstu aleiguna. Yfirvöldin hafa haft nægan tíma til að rannsaka þessa atburðarás, en þau hafa kosið að leiða hana hjá sér. Tilfinnanlegust er e.t.v. vanræksla Alþingis sem samþykkti í desember 2012 að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu bankanna en ekkert bólar þó enn á slíkri rannsókn. Svo vant sem Alþingi er að virðingu sinni getur það varla talið sæma að fagna 100 ára afmæli fullveldisins 1. desember 2018 með lúðraþyt og söng eftir að hafa látið fyrningarfrest meintra innherja- og umboðssvika í hruninu líða hjá sjö vikum fyrr vitandi vits – og stolið nýju stjórnarskránni í þokkabót. Rifjast nú upp fyrir mér spurningin sem einn helzti listamaður þjóðarinnar lagði fyrir mig við kvöldverðarborð í heimahúsi: Datt ykkur ekki í hug að bjóða þeim að halda þýfinu í skiptum fyrir nýju stjórnarskrána? Ekki mitt að bjóða, svaraði ég. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun
Eftir hrunið 2008 varð fljótlega ljóst að þv. ríkisstjórn vildi ekki að erlendir aðilar kæmu að rannsókn málsins. Ég lagði það til í ræðu minni á borgarafundi í Háskólabíói 24. nóvember þá um haustið að óvilhallir útlendingar yrðu hafðir með í ráðum við rannsóknina og aftur í einkasamtali við ráðherra. Ég varð þess áskynja að við þetta var ekki komandi. Ég var ekki einn um þessar áhyggjur. Jónas Kristjánsson ritstjóri skrifaði tæpu ári síðar, 28. september 2009, undir yfirskriftinni Vel tengdur glæpalýður: „Erlendir ráðamenn efast um, að Ísland geri upp sakirnar við glæpalýðinn, sem rústaði fjárhag og áliti landsins. Gera ráð fyrir, að sannleiksnefndin fræga stundi kattarþvott. Taka eftir, að enginn glæpamaður hefur verið settur inn, ekki einu sinni yfirmenn IceSave og Landsbankans. Ísland er talið vera eins konar mafíuríki, þar sem vel tengdur glæpalýður sleppur billega frá ofursyndum sínum. Samt er Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur formlega við völd. En hann ræður enn embættum og dómstólum og lögreglu og skilanefndum og sannleiksnefnd. Pólitíkin er máttvana, jafnvel þótt hér sé vinstri stjórn.“Erlend skrif um Ísland Bakgrunnur þessara áhyggna Jónasar Kristjánssonar og margra annarra var m.a. fréttaflutningur erlendra fjölmiðla um Ísland, en landið hafði fram að hruni ekki verið í alfaraleið heimspressunnar. Hrunárið 2008 brá svo við að Financial Times í London birti 250 greinar um Ísland, Globe and Mail í Torontó birti 170 greinar, Guardian sem var áður kennt við Manchester og er nú heimsblað 130, Le Monde í París 110 og New York Times 75. Þessar tölur eru sóttar í bók eftir kanadíska prófessorinn Daníel Chartier frá 2011, The End of Iceland's Innocence: The Image of Iceland in the Foreign Media during the Financial Crisis. Erlendir fjölmiðlar (og innlendir!) fjölluðu m.a. um grunsemdir um að íslenzkir bankar hefðu stundað fjárböðun fyrir rússnesku mafíuna og um tilraun þv. ríkisstjórnar og Seðlabankans til að komast hjá að þiggja aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með því að taka heldur risalán hjá Pútín Rússlandsforseta. Grunsemdirnar um Rússatengslin eru enn á sveimi m.a. vegna þess að Ísland kann að koma við sögu í rannsókn bandaríska saksóknarans Roberts Mueller á tengslum Trumps forseta og manna hans við Rússa, þ. á m. dæmda menn og mafíósa. Þetta er samt ekki allt. Fyrir liggur að miklu fé var mokað út úr bönkunum í miðju hruni, bæði mánudaginn 6. október 2008 eins og leknu gögnin sem Stundin birti frá skilanefnd Glitnis vitna um og lögbann var lagt á fyrir nokkru og jafnvel einnig þriðjudaginn 7. október eins og Robert Wade, prófessor í London School of Economics, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í Háskóla Íslands, hafa lýst í erlendu tímariti (New Left Review, september/október 2010, bls. 22). Þau skrifa [mín þýðing, ÞG]: „Meðan krónan var í frjálsu falli, gjaldeyrisforðinn var á þrotum og engar hömlur öftruðu útstreymi fjármagns, var gengið fest í fáeinar klukkustundir; þetta var e.t.v. stytzta fastgengisskeið sem sögur fara af. En það var nógu langt til þess að vel tengdir innherjar gátu fært fé sitt úr krónum yfir í gjaldeyri á miklu hagstæðara gengi en þeim myndi bjóðast síðar. Heimildir innan bankanna herma að milljarðar hafi flúið krónuna þessar klukkustundir. … Síðan var krónan sett á flot – og hún sökk eins og steinn.“Virðing Alþingis Ótti við hvítþvott af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis reyndist ekki réttur. Nefndin skilaði góðu verki á heildina litið. Hitt er þó rétt að RNA tók á hvorugu málinu sem lýst er hér að framan, hvorki meintri fjárböðun fyrir Rússa né meintum mokstri fjár vel tengdra manna út úr bönkunum og út úr landinu í miðju hruni meðan venjulegt fólk sat eftir með sárt ennið og sumir misstu aleiguna. Yfirvöldin hafa haft nægan tíma til að rannsaka þessa atburðarás, en þau hafa kosið að leiða hana hjá sér. Tilfinnanlegust er e.t.v. vanræksla Alþingis sem samþykkti í desember 2012 að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu bankanna en ekkert bólar þó enn á slíkri rannsókn. Svo vant sem Alþingi er að virðingu sinni getur það varla talið sæma að fagna 100 ára afmæli fullveldisins 1. desember 2018 með lúðraþyt og söng eftir að hafa látið fyrningarfrest meintra innherja- og umboðssvika í hruninu líða hjá sjö vikum fyrr vitandi vits – og stolið nýju stjórnarskránni í þokkabót. Rifjast nú upp fyrir mér spurningin sem einn helzti listamaður þjóðarinnar lagði fyrir mig við kvöldverðarborð í heimahúsi: Datt ykkur ekki í hug að bjóða þeim að halda þýfinu í skiptum fyrir nýju stjórnarskrána? Ekki mitt að bjóða, svaraði ég. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.