Roy Moore, frambjóðandi Repúblikana í Alabama til öldungadeildar Bandaríkjaþings, laut í lægra haldi fyrir Demókratanum Doug Jones þegar talið var upp úr kjörkössunum í fyrrinótt. Moore tapaði með minnsta mun en einungis 20.000 atkvæði af 1,3 milljónum skildu frambjóðendurna að. Verður Jones því fyrsti Demókratinn til að sitja í öldungadeildinni fyrir Demókrata í aldarfjórðung.
Moore játaði sig hins vegar ekki sigraðan í gær og hafði hann ekki gert það þegar Fréttablaðið fór í prentun. „Þegar svona mjótt er á munum er þetta ekki búið,“ sagði Repúblikaninn, sem sakaður hefur verið um kynferðisbrot gegn stúlkum undir lögaldri, við stuðningsmenn sína í fyrrinótt.
John Merrill, innanríkisráðherra Alabama, sagði í viðtali við CNN í gær að Moore væri svo sannarlega ekki sigurvegari kosninganna. Jafnframt sagði hann að ekki yrði ráðist sjálfkrafa í endurtalningu atkvæða. „Ég er viss um að þetta skiptir framboð hans máli og ég er viss um að þetta skiptir ýmsa aðra máli. Ég er hins vegar ekki viss um að Doug Jones hafi miklar áhyggjur af þessu,“ sagði Merrill.
Rík hefð er fyrir því í Bandaríkjunum að sá sem lýtur í lægra haldi hringi í sigurvegarann í kjölfar kosninga og færi honum hamingjuóskir. Þess er skemmst að minnast að í aðdraganda forsetakosninga síðasta árs neitaði Trump að heita því að virða niðurstöður kosninganna og hringja slíkt símtal án þess að gengið væri úr skugga um að ekki hefði verið svindlað á honum.
Moore játar ekki ósigur

Tengdar fréttir

Trump lýsir yfir stuðningi við Moore
Fjöldi kvenna hafa á síðustu vikum sakað frambjóðanda Repúblikana til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Alabama um að hafa áreitt þær kynferðislega á áttunda áratugnum.

Mjótt á munum í kosningabaráttu í Alabama eftir ásakanir um barnaníð
Þrátt fyrir fjölda ásakana um kynferðislega tilburði við ungar stúlku og konur á Roy Moore enn góða möguleika á að vera kjörinn öldungadeildarþingmaður Alabama.

Uppnám í Alabama
Demókratinn Doug Jones fór með sigur af hólmi í kosningum sem fram fóru í gær um laust sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Alabamaríki.