Kolefnishlutleysi Kjartan Hreinn Njálsson skrifar 5. desember 2017 07:00 Ljóst er að ný ríkisstjórn hefur sameinast um afar metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Í stjórnarsáttmála boðar hún 40 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (miðað við árið 1990) fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2040. Nokkrar þjóðir hafa sett sér sambærileg markmið um kolefnishlutleysi, þar á meðal Svíþjóð og Noregur. Aðeins tvö lönd hafa náð þessum áfanga nú þegar, smáríkin Bútan og Vatíkanið. Þessi markmið fela í sér meiriháttar áskorun sem snertir flesta fleti íslensks samfélags og útheimta samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja. Eins og staðan er í dag eru þessar hugmyndir óraunhæfar. Ef fram heldur sem horfir gæti losun árið 2030 orðið 53 til 99 prósentum meiri en útstreymi ársins 1990, það er, ef stóriðja er tekin með í reikninginn. Þetta er sviðsmynd sem raungerist ef ekkert verður gert til að uppfylla markmið okkar og loforð um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrr á þessu ári birti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands samantekt sína á mögulegum mótvægisaðgerðum til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Skýrslan undirstrikar umfang þessa mikla verks sem felst í markmiðum Parísarsamkomulagsins og kolefnishlutleysis. Ef tekið er mið af þessum mótvægisaðgerðum, sem taka til flestra geira íslensks samfélags, og við höldum uppteknum og máttlausum hætti áfram í landgræðslu og skógrækt, gæti nettóútstreymi ársins 2030 numið 18 prósentum minna en árið 1990. Góður árangur, en hvergi nærri nóg. Aftur á móti, ef metnaðarfullar mótvægisaðgerðir eru innleiddar og Íslendingar sameinast um róttækar og sögulegar aðgerðir í bindingu þar sem aðgerðahraði í landgræðslu og skógrækt yrði fjórfaldaður, auk endurheimtar votlendis, þá gæti nettóútstreymi ársins 2030 orðið 97 prósentum minna en árið 1990. Í þessu dæmi er horft til þess að framleiðsla járnblendis, áls og kísils fellur innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins (ETS). Stóriðja mun þvælast fyrir í öllum aðgerðum okkar. Sé það markmið okkar að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins eða hugmyndir um kolefnishlutleysi er ljóst að útstreymi frá þeim geira má hvorki aukast, né standa í stað. Markmið nýrrar ríkisstjórnar eru sannarlega metnaðarfull, en um leið eru þau tímabær og þjóðhagslega skynsöm. Þau eru tímabær að því leyti að Íslendingum ber siðferðisleg skylda til að tryggja afkomendum vistvænt, hreint og byggilegt land, og þjóðhagslega skynsöm að því leyti að í aðgerðum til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda felast hagfelld innri og ytri áhrif, svo sem aukin landgæði, bætt loftgæði og betri heilsa. Þannig er mikilvægt að innleiða og útfæra þessi markmið sem fyrst, og búa svo um hnútana að sögulega lítilsverðir atburðir eins og ríkisstjórnarskipti tefji ekki þessa vegferð okkar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kjartan Hreinn Njálsson Mest lesið Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun
Ljóst er að ný ríkisstjórn hefur sameinast um afar metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Í stjórnarsáttmála boðar hún 40 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (miðað við árið 1990) fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2040. Nokkrar þjóðir hafa sett sér sambærileg markmið um kolefnishlutleysi, þar á meðal Svíþjóð og Noregur. Aðeins tvö lönd hafa náð þessum áfanga nú þegar, smáríkin Bútan og Vatíkanið. Þessi markmið fela í sér meiriháttar áskorun sem snertir flesta fleti íslensks samfélags og útheimta samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja. Eins og staðan er í dag eru þessar hugmyndir óraunhæfar. Ef fram heldur sem horfir gæti losun árið 2030 orðið 53 til 99 prósentum meiri en útstreymi ársins 1990, það er, ef stóriðja er tekin með í reikninginn. Þetta er sviðsmynd sem raungerist ef ekkert verður gert til að uppfylla markmið okkar og loforð um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrr á þessu ári birti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands samantekt sína á mögulegum mótvægisaðgerðum til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Skýrslan undirstrikar umfang þessa mikla verks sem felst í markmiðum Parísarsamkomulagsins og kolefnishlutleysis. Ef tekið er mið af þessum mótvægisaðgerðum, sem taka til flestra geira íslensks samfélags, og við höldum uppteknum og máttlausum hætti áfram í landgræðslu og skógrækt, gæti nettóútstreymi ársins 2030 numið 18 prósentum minna en árið 1990. Góður árangur, en hvergi nærri nóg. Aftur á móti, ef metnaðarfullar mótvægisaðgerðir eru innleiddar og Íslendingar sameinast um róttækar og sögulegar aðgerðir í bindingu þar sem aðgerðahraði í landgræðslu og skógrækt yrði fjórfaldaður, auk endurheimtar votlendis, þá gæti nettóútstreymi ársins 2030 orðið 97 prósentum minna en árið 1990. Í þessu dæmi er horft til þess að framleiðsla járnblendis, áls og kísils fellur innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins (ETS). Stóriðja mun þvælast fyrir í öllum aðgerðum okkar. Sé það markmið okkar að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins eða hugmyndir um kolefnishlutleysi er ljóst að útstreymi frá þeim geira má hvorki aukast, né standa í stað. Markmið nýrrar ríkisstjórnar eru sannarlega metnaðarfull, en um leið eru þau tímabær og þjóðhagslega skynsöm. Þau eru tímabær að því leyti að Íslendingum ber siðferðisleg skylda til að tryggja afkomendum vistvænt, hreint og byggilegt land, og þjóðhagslega skynsöm að því leyti að í aðgerðum til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda felast hagfelld innri og ytri áhrif, svo sem aukin landgæði, bætt loftgæði og betri heilsa. Þannig er mikilvægt að innleiða og útfæra þessi markmið sem fyrst, og búa svo um hnútana að sögulega lítilsverðir atburðir eins og ríkisstjórnarskipti tefji ekki þessa vegferð okkar.