Tíu menn Villarreal náðu ekki að stríða toppliði Barcelona í spænsku La Liga deildinni í fótbolta.
Raba fékk beint rautt spjald á 60. mínútu leiksins fyrir háskalega tæklingu á Sergio Busquets. Þá var staðan enn markalaus, en það tók Börsunga ekki langan tíma að breyta því.
Eftir frábæra fótboltasýningu skoraði Luis Suarez á 72. mínútu. Messi sendi boltann á Suarez, sem fór í þríhyrning við Paco Alcacer og Suarez lék svo á markvörðinn og setti boltann í tómt netið.
Messi tvöfaldaði svo forystu Barcelona á 83. mínútu. Tveir varnarmenn Villarreal skullu saman þegar þeir reyndu að stöðva Messi, sem hamraði boltann í netið.
Barcelona er með fimm stiga forystu á Valencia á toppi deildarinnar. Villarreal er í 6. sæti, átján stigum á eftir Barcelona.
Suarez og Messi sáu um tíu menn Villarreal
