Formenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna funduðu fram á kvöld í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna sem nú hafa staðið í viku. Fundur formannanna hófst klukkan 9:30 í morgun og lauk á áttunda tímanum í kvöld.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að viðræðurnar gangi enn ágætlega. Þó er enn ekki kominn nein dagsetning á það hvenær málefnasamningur mun liggja fyrir.
„Við vorum fyrst og fremst að fara yfir málefnaflokkanna og munum væntanlega halda því áfram á morgun og fá þá til okkar fleiri sérfræðinga,“ segir Sigurður Ingi en í liðinni viku fengu formennirnir meðal annars til sín aðila vinnumarkaðarins og landlækni.
Formlegar viðræður flokkanna hófust síðastliðinn þriðjudag en óformlegar viðræður þeirra höfðu þá staðið í um viku. Enginn fer með formlegt stjórnarmyndunarumboð í viðræðunum en komið hefur fram að lagt sé upp með að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði forsætisráðherra. Á laugardaginn upplýsti hún Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um gang viðræðnanna.

