Fyrsti fundur formlegra stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðiflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er í dag.
Auk formannanna þriggja, þeirra Bjarna Benediktssonar, Katrínar Jakobsdóttur og Sigurðar Inga Jóhannssonar, munu tveir til viðbótar frá hverjum flokki sitja fundinn en það er sami hópur og var í óformlegum viðræðum flokkanna sem fóru fram á föstudag og laugardag.
Sigurður Ingi segir í samtali við Vísi að fundurinn í dag leggist vel í sig.
„Við ætlum bara að leggjast yfir þetta fyrst þessi hópur í dag. Svo munum við fá „input“ innan úr stjórnkerfinu varðandi staðreyndir, tölur og annað slíkt,“ segir Sigurður Ingi.
Aðspurður á hverju verði byrjað í dag segir Sigurður Ingi að það verði byrjað þar sem frá var horfið um helgina og fara ofan í það sem verið var að ræða þá.
„Svona það sem felst í að breyta óformlegum viðræðum í formlegar.“
Lagt er upp með það að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði forsætisráðherra ef af myndun ríkisstjórnar þessara þriggja flokka verður og má því gera ráð fyrir því að hún leiði stjórnarmyndunarviðræðurnar.
Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að viðræður flokkanna um málefni væru mjög langt komnar. Ólíkar áherslur flokkanna í skattamálum munu verða lagðar til hliðar að mestu leyti en þó er áformað að gera breytingar í skattamálum í tengslum við komandi kjaraviðræður.
Þá verður beðið með formlegar viðræður um skiptingu ráðuneyta bæði hvað varðar fjölda ráðuneyta og hvernig þeim verður skipt, þar til fyrir liggur að flokkarnir nái saman um málefnin.
