Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokk og Vinstri grænna hófust í morgun þegar forystufólk og fulltrúar flokkanna komu saman til fundar á skrifstofum Framsóknar í húsakynnum Alþingis.
Það varð ljóst í gær að flokkarnir þrír myndu fara í formlegar viðræður en á föstudag og laugardag voru þeir í óformlegum viðræðum.
Þingflokkarnir samþykktu það allir í gær að hefja formlegar viðræður en mest andstaða er við það innan þingflokks Vinstri grænna þar sem tveir þingmenn, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði gegn því að fara í viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þá er jafnframt þó nokkur andstaða við það í grasrót VG að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki.
Enginn fer með formlegt stjórnarmyndunarumboð en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í gær að lagt væri upp með það að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, yrði forsætisráðherra ef af ríkisstjórn flokkanna þriggja verður. Það má því gera ráð fyrir því að hún leiði viðræður flokkanna.
Í tilkynningu frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í gær kom fram að hann byggist við því að það lægi fyrir í lok vikunnar hvort flokkunum þremur tekst að ná saman um myndun ríkisstjórnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hafnar

Tengdar fréttir

Fyrsti fundur formlegra stjórnarmyndunarviðræðna í dag
Fyrsti fundur formlegra stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðiflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er í dag.

Óbreytt staða í skattamálum
Málefnaviðræður flokkanna eru mjög langt komnar. Ríkisstjórn gæti orðið til um næstu helgi. Ágreiningur um ráðherraembætti geymdur þar til síðast. Átök gætu orðið milli flokkanna um utanríkisráðuneytið.