Chelsea fékk á baukinn í Rómarborg í gær er liðið tapaði 3-0 gegn AS Roma. Skal því engan undra að stjóri Chelsea, Antonio Conte, sé áhyggjufullur.
Chelsea-liðið spilaði alls ekki vel í leiknum og öllum ljóst að eitthvað er að innan herbúða liðsins.
„Ef lið á að vera frábært þá þarf stöðugleika. Við erum í miklum vandræðum með að finna þennan stöðugleika í okkar leik,“ sagði Conte en það vantaði ekkert upp á stöðugleikann á síðustu leiktíð er Chelsea tryggði sér enska meistaratitilinn.
„Við þurfum að finna hungrið sem var í liðinu á síðustu leiktíð. Það kemur stundum á þessari leiktíð en við erum allt of sveiflukenndir í okkar leik.“
Chelsea byggði liðið á sterkum varnarleik í fyrra en varnarleikur liðsins í gær var brandari oft á köflum.
