Handbolti

Enginn betri en Elvar Örn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erfitt hefur verið að stoppa Elvar Örn Jónsson í Olís-deild karla í vetur. Hér sést hann í endurkomusigrinum á Aftureldingu á dögunum.
Erfitt hefur verið að stoppa Elvar Örn Jónsson í Olís-deild karla í vetur. Hér sést hann í endurkomusigrinum á Aftureldingu á dögunum. vísir/eyþór
Draumur handboltaáhugamanna á Íslandi um alvöru tölfræði í úrvalsdeildinni hefur loksins ræst og við á íþróttadeild Fréttablaðsins ætlum í dag að kafa aðeins nánar í hvaða leikmenn hafa skarað framúr í byrjun tímabilsins í Olís-deild karla.

Seinni bylgjan á Stöð 2 Sport nældi sér í góðan liðstyrk í haust þegar hún fékk HB Statz til liðs við sig.

Tölfræðin hefur verið stór þáttur í umfjölluninni í vetur en það er líka gaman að skoða stöðu mála í tölfræðinni nú þegar öll liðin hafa spilað sjö leiki. Hjá HB Statz er frammistöðumat og þar má sjá hver hefur verið besti leikmaðurinn á fyrsta þriðjungi deildarkeppninnar.

Tveir efstu menn eru jafnir fram í þriðja aukastaf en þá greinir loks á milli þeirra. Báðir voru þeir valdir í landsliðshópinn á móti Svíum þótt þeir séu á sitthvorum endanum á landsliðsferli sínum.

Elvar er með 8,39 í meðaleinkunn hjá HB Statz.vísir/stefán
Farið mikinn í sigurgöngunni

Elvar Örn Jónsson er aðeins 20 ára gamall en hann hefur farið mikinn með Selfossliðinu til þessa á tímabilinu. Selfyssingar hafa unnið þrjá leiki í röð og alls fimm af síðustu sex leikjum sínum í Olís-deildinni. Frammistaða Elvars hefur þar skipt öllu máli, ekki síst í mörgum endurkomum liðsins á lokamínútum leikjanna.

Elvar er með 8,39 í meðaleinkunn fyrir frammistöðu sína í fyrstu sjö leikjunum. Hann er sjötti markahæsti maðurinn með 6,7 mörk í leik en er enn fremur í sjöunda sætinu í stoðsendingum með 3,1 að meðaltali.

Elvar er alls að skapa 4,9 skotfæri fyrir félaganna í hverjum leik. Það er mjög góð skotnýting (65 prósent) og fáir tapaðir boltar (1,3 í leik) sem skila honum síðan upp í efsta sætið á einkunnalistanum.

Elvar er, auk þess að vera með bestu einkunnina fyrir sóknarleikinn, einnig í 5. sæti yfir bestu frammistöðuna í varnarleiknum. Þar er aftur á móti Víkingurinn Ægir Hrafn Jónsson í efsta sæti og sá eini sem er með yfir átta í meðaleinkunn fyrir varnarleik sinn.

Því miður gat Elvar Örn ekki tekið þátt í landsleikjunum við Svía vegna bakmeiðsla og þá er óvissa um hvort að hann spili eitthvað næstu vikurnar. Þá kannski fyrst sjáum við mikilvægi hans fyrir Selfossliðið.

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll hefur verið frábær í upphafi tímabils.vísir/anton
Haukar eiga næstu tvo

Haukar eiga leikmennina í öðru og þriðja sæti listans.

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er rétt á eftir Elvari en hann er aftur á móti með nokkra yfirburðastöðu meðal markvarða deildarinnar. Björgvin Páll var stórkostlegur í fyrstu leikjunum með Haukaliðinu og hefur verið efstur í einkunnagjöf HB Statz nær allt tímabilið.

Björgvin Páll er búinn að verja 15,0 skot að meðaltali eða 40,5 prósent skota sem hafa komið á hann. Hann hefur alls varið sex víti og þá vekur sérstaka athygli að hann hefur gefið alls ellefu stoðsendingar fram á félaga sína í hraðaupphlaupum. Björgvin Páll hefur síðan skorað tvö mörk sjálfur.

Bestu leikmenn Olís-deildar karla það sem af er tímabili.
Á topp þrjú á báðum stöðum

Þriðji á einkunnalistanum er síðan Daníel Ingason úr Haukum sem er jafnframt sá eini sem er inni á topp þrjú í bæði sóknarleik og varnarleik.

Daníel er markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Gróttumanninum Max Jonsson en báðir hafa þeir skorað 56 mörk eða 8,0 mörk að meðaltali í leik. Daníel er líka í öðru sæti yfir þá sem oftast hafa náð að stöðva andstæðingana löglega í vörninni. Aðeins Valsmaðurinn Alexander Örn Júlíusson er á undan honum.

Efsti maður toppliðs FH-inga á listanum er Einar Rafn Eiðsson í fjórða sætinu en hann er sá síðasti af leikmönnum deildarinnar sem eru með hærra en átta í meðaleinkunn. Einar Rafn er þriðji í stoðsendingum (4,0 í leik) og sjöundi markahæsti leikmaður deildarinnar með 6 mörk að meðaltali í leik.

Hér til hliðar má sjá topp tuttugu listann yfir bestu frammistöðuna til þessa og einnig hverjir hafa verið bestir í marki, í vörn og í sókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×