Viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra er lokið í dag. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar 2.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokksins og Pírata hafa fundað á heimili Sigurðar Inga í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi.
Sigurður Ingi sagði við Rás 2 að hópurinn muni hittast aftur á morgun og verður hann á höfuðborgarsvæðinu. Sumt hafi skýrst verulega í viðræðunum í dag en annað sé enn í umræðuferli.
Hann sagði að ef þessi ríkisstjórn verði að veruleika muni hún einblína á málin sem fólk ræðir við eldhúsborðið. Þar átti hann við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, menntamál og samgöngur, og nefndi þá um leið að stjórnin gæti borið heitið Uppbyggingarstjórnin.

