„Þetta í rauninni kemur kannski á óvart en það var gott að þetta var reynt,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um þær fréttir að stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokksins og Pírata hafi siglt í strand.
Hún segir það hafa verið rökrétt hjá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, að reyna þetta stjórnarmynstur í ljósi úrslita kosninganna.
Katrín greindi frá því í þinghúsinu í dag að hún hefði svigrúm fram eftir degi til að fara yfir aðra möguleika í stöðunni áður en hún fer á fund forseta Íslands á Bessastöðum klukkan 17 í dag.
Spurð hvort að búið sé að hafa samband við Viðreisn segir Þorgerður engar formlegar viðræður í gangi.
„Það er ekkert formlegt í gangi,“ segir Þorgerður en bætir við að það sé mikilvægt að og heilbrigt fyrir stjórnmálin að fólk tali saman.
Hún segist geta trúað því að það verði kominn einhver gangur í viðræður um annað stjórnarmynstur um komandi helgi.
Hvort Viðreisn verði hluti af þeim viðræðum vill hún ekkert gefa út um.
„Ég ef ítrekað að við erum ekki að fara í ríkisstjórn til að fara í ríkisstjórn. Ef við getum stutt við eitthvað sem er gott og stuðlar að stöðugleika fyrir samfélagið munum við ekki láta okkur eftir liggja. Við allavega förum rólega.“

