Guðbjörg Gunnarsdóttir hélt marki sínu hreinu þegar Djurgården vann 0-3 sigur á botnliði Örebro í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Þetta var fyrsti sigur Djurgården í rúman mánuð. Liðið er í 5. sæti sænsku deildarinnar með 30 stig.
Hallbera Gísladóttir var í byrjunarliði Djurgården en fór af velli þegar sjö mínútur voru eftir.
Í sænsku karladeildinni vann Norrköping 2-0 sigur á Örebro.
Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn í miðri vörn Norrköping sem er í 6. sæti deildarinnar. Ungu strákarnir Alfons Sampsted og Arnór Sigurðsson komu inn á sem varamenn í seinni hálfleik en Guðmundur Þórarinsson var ekki með að þessu sinni.
Í hinum leik kvöldsins bar AIK sigurorð af IFK Göteborg, 2-1. Haukur Heiðar Hauksson lék ekki með AIK sem er í 2. sæti deildarinnar. Elías Már Ómarsson sat allan tímann á bekknum hjá Göteborg.

