Það er mikið undir á Wembley í kvöld er Evrópumeistarar Real Madrid sækja Tottenham Hotspur heim. Liðin eru jöfn á toppi H-riðils með sjö stig eftir fyrri umferðina. Leikur liðanna í Madrid á dögunum var magnaður og Tottenham sótti þar gott stig. Þau hefðu hæglega getað verið fleiri.
Real Madrid er í krísu í fyrsta skipti síðan Zinedine Zidane byrjaði að þjálfa félagið. Tap fyrir nýliðum Girona á dögunum var þó stærsta áfallið og sýndi svo um munaði að ekki er allt með felldu í herbúðum félagsins þessa dagana.
Wembley hefur ekki verið neinn happastaður fyrir Tottenham sem lengi vel gat ekki keypt sigur á vellinum. Það hefur þó aðeins verið að lagast eftir því sem liðið venst því að spila á þessum risastóra leikvangi.
Það eru mjög góð tíðindi fyrir Tottenham að maðurinn sem hefur borið liðið á á herðum sér í vetur, framherjinn Harry Kane, æfði í gær og mun því líklega spila í kvöld. Hann gat ekki spilað í tapleiknum gegn Man. Utd um síðustu helgi vegna meiðsla.
„Við munum ræða við læknana og leikmanninn áður en við tökum ákvörðun sem er best fyrir alla,“ sagði Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, er hann var spurður út í ástand framherjans.
„Ég hef samt góða tilfinningu fyrir því að hann spili. Það er samt ekki mín tilfinning sem skiptir máli heldur hvernig Harry Kane líður sjálfum.“
Þetta er örugglega leikurinn sem Gareth Bale er búinn að horfa til allt tímabilið. Hann var auðvitað seldur frá Tottenham til Real Madrid á sínum tíma og hlakkaði eflaust til þess að spila gegn sínu gamla félagi.
Bale gat ekki spilað fyrri leikinn gegn Spurs vegna meiðsla og hann hefur ekki náð sér góðum af þeim. Þar af leiðandi var hann ekki valinn í leikmannahóp félagsins fyrir leikinn. Svekkjandi fyrir hann sem og eflaust marga stuðningsmenn Tottenham sem vildu sjá hann spila á nýjan leik í London.
Enginn Bale en Kane gæti spilað
Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Mest lesið







Real Madrid vill fara í viðræður við Liverpool um Trent
Enski boltinn


Valdi fjórar verstu hornspyrnur ÍBV: „Þessi var helvíti slæm“
Íslenski boltinn

Ráðherra bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar
Enski boltinn