Íslensku strákarnir tryggðu sér sigur í riðlinum og sæti á HM með 2-0 sigri á Kósóvó á Laugardalsvellinum í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson skoruðu mörk íslenska liðsins í leiknum.
Það verður dregið í riðla í úrslitakeppninni 1. desember næstkomandi eða eftir 53 daga. Við þurfum því að bíða í tæpa tvo mánuði eftir því að fá að vita hvaða þrjár aðrar þjóðir verða með okkur í riðli í úrslitakeppni HM næsta sumar.
Það er enn verið að berjast um laus sæti í úrslitakeppninni þótt að íslenska landsliðið hafi tryggt sér sinn farseðil í kvöld.
Drátturinn fer að sjálfsögðu fram í Kremlin höllinni í Moskvu.
Liðunum verður skipt niður í fjóra styrkleikaflokka samkvæmt stöðu þeirra á FIFA listanum sem kemur út seinna í þessum mánuði. Nú í fyrsta sinn skiptir það ekki máli frá hvaða álfu þjóðirnar eru því styrkleikaröðin ræður í hvaða styrkleikaflokki þjóðirnar eru.
Riðlarnir verða átta talsins og fjögur lið eru í hverjum riðli.
QUALIFIED!
Congratulations, Iceland!
The smallest nation ever to reach a #WorldCup! See you in Russia! #WCQpic.twitter.com/Xy1ysyLdpA
— #WCQ (@FIFAWorldCup) October 9, 2017