Innlent

Vonast til að þrí­víddar­gang­braut á Ísa­firði lækki um­ferðar­hraða

Birgir Olgeirsson skrifar
Þrívíddargangbrautin í Hafnarstræti á Ísafirði.
Þrívíddargangbrautin í Hafnarstræti á Ísafirði. Mynd/ Ágúst G. Atlason
Búið er að koma upp þrívíddargangbraut á götunni við Landsbankahúsið á Ísafirði. Það var Vegmálun GÍH sem sá um verkið ásamt Ralf Trylla, umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Gautur Ívar Halldórsson, framkvæmdastjóri Vegmálun GÍH, segir í samtali við Vísi að þessi hugmynd komi upphaflega frá Nýju Delí, höfuðborgar Indlands, en þar var þetta gert til að lækka umferðarhraða og er vonast til að þessi þrívíddargangbraut á Ísafirði muni hafa sömu áhrif.

Gautur Ívar Halldórsson og Ralf Trylla að störfum í dag.Ágúst G. Atlason
„Gangbraut með þessu sniði gerir það að verkum að hún lítur út eins og fyrirstaða á veginum,“ segir Gautur Ívar, en vonast er til að það fái ökumenn til að hægja ferðina.

Gautur segir hann og Ralf Trylla hafa þurft að æfa sig örlítið í þrívíddarmálun áður en þeir lögðu í verkið. Þeir hófust svo handa eftir hádegi í dag og voru að klára verkið nú á fimmta tímanum í dag.

Hugmyndin kom upp nú í september en nokkrar vikur tók að fá samþykki frá samgöngustofu og lögreglu.

Ágúst G. Atlason
Ágúst G. Atlason
Ágúst G. Atlason
Ágúst G. Atlason
Ágúst G. Atlason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×