Úrsögn Þorsteins sem og stjórnar Framsóknarfélagsins í Mosfellsbæ kemur í kjölfar fregna af stofnun nýs stjórnmálaafls Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns Framsóknar. Hann lýsti því í bréfi til Framsóknarmanna í gær, sem og í viðtali við Fréttablaðið nú í morgun, hvernig honum hafi aldrei tekist að ná sáttum við „flokkseigendafélagið í Framsókn“ og þau öfl sem vildu hann burt.
Í tilkynningu frá Þorsteini, sem var þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi frá 2013-2016 er tekið undir þessi sjónarmið Sigmundar Davíðs.
„Á síðasta flokksþingi varaði ég eindregið við því að steypa flokknum í formannskjör korteri fyrir kosningar. Á þau varnaðarorð var ekki hlustað og flokkurinn beið sinn versta ósigur í 100 ár. Á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur lítið sem ekkert verið gert til að græða sár eða auka samstöðu. Nú í aðdraganda kosninga hefur sá hópur sem nú stjórnar flokknum ákveðið að ganga milli bols og höfuðs á þeim „háværa minnihluta” sem varð undir á síðasta flokksþingi,“ segir Þorsteinn.

Kvarnast úr flokknum eftir útspil Sigmundar Davíðs
Margir Framsóknarmenn virðast nú íhuga nú stöðu sína, hvort þeir fylgi Sigmundi í nýtt afl eða haldi tryggð við Framsóknarflokkinn. Fyrr í dag tilkynnti Ragnar Stefán Rögnvaldsson, formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, hefur ákveðið að segja sig úr flokknum. Þá hefur Einar Birkir Kristjánsson, sem er í miðstjórn flokksins, einnig sagt sig úr flokknum.Í tilkynningu frá stjórnarmeðlimum Framsóknarfélags Mosfellsbæjar má greina sömu stef og í orðum Sigmundar Davíðs, sem og í yfirlýsingu Þorsteins.
„Við kjósum að starfa ekki í flokki þar sem vinnubrögð síðastliðins árs ætla að vera viðvarandi. Okkar mat er að engar sáttaleiðir hafi verið gerðar eftir aðförina sem gerð var að fyrrverandi formanni flokksins á síðasta Flokksþingi og nú séu komin öfl til valda sem við eigum enga samleið með,“ segir í yfirlýsingu frá Jóni Péturssyni formanni, Halldóru Baldursdóttur varaformanni, Lindu Björk Stefánsdóttur, Friðberti Bragasyni og Einari Vigni Einarssyni sem eru stjórnarmenn.
Hafa þau ákveðið að segja af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn.
Í gær sendi Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, frá sér tilkynningu í þar sem hann sagði skilið við flokkinn og tók í meginatriðum undir yfirlýsingu Sigmundar Davíðs. Formaður Framsóknarfélags Þingeyinga, Þorgrímur Sigmundsson, lýsti einnig yfir fullum stuðningi við það framboð sem Sigmundur hefur boðað og hvetur hann til allra góðra verka.