Ronaldo hefur nú skorað 14 mörk í síðustu sjö leikjum sínum í Meistaradeildinni.
Hann skoraði 10 mörk í síðustu fimm leikjum Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili. Þau komu ekki gegn neinum aumingjum; Bayern München, Atlético Madrid og Juventus.
Ronaldo hefur haldið uppteknum hætti í upphafi þessa tímabils. Hann skoraði tvö mörk í 3-0 sigri á APOEL í 1. umferð riðlakeppninnar og svo aftur tvö mörk gegn Dortmund í gær.
Leikurinn í gær var 400. leikur Ronaldos með Real Madrid. Í þessum 400 leikjum hefur hann skorað 412 mörk. Gjörsamlega sturluð tölfræði hjá Portúgalanum marksækna.
Ronaldo er markahæsti leikmaður í sögu Real Madrid og jafnframt markahæsti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar með 110 mörk.
Ronaldo hefur orðið markakóngur Meistaradeildarinnar undanfarin fimm ár og sex sinnum alls.