Bjarni sagði að hann hefði heyrt af því í júlí frá Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, að faðir hans hefði verið umsagnaraðili.
„Það var mér áfall að heyra af því. Ég hefði ekki getað sjálfur skrifað undir slíkt meðmælabréf og ég mun aldrei reyna að verja þá gjörð,“ sagði Bjarni.
Hann segir að þá hafi hann verið kominn í vandasama stöðu.
„Þarna var ég kominn með upplýsingar um það að inni í kerfinu væri mál sem var ekki í fjölmiðlaumræðunni“
Hann segist hafa tekið ákvörðun að hann myndi meðhöndla málið sem trúnaðarmál. Honum hafi verið mest umhugað að ekkert mál fengi sérmeðferð og sagðist á engum tímapunkti hafa stungið neinu undir stól eða haldið upplýsingum frá fólki. Hann hafi lögum samkvæmt ekki getað deilt upplýsingunum með samráðherrum sínum.
Bjarni lét síðan fyrrverandi samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn, Bjarta framtíð, heyra það en Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu í gærkvöldi. Nánar má lesa um það hér.
Þá tilkynnti Bjarni það einnig á fundinum að hann myndi boða til kosninga og horfir hann til nóvembers í þeim efnum. Nánar má lesa um það hér.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun funda með Bjarna klukkan 11 á Bessastöðum á morgun.