„Þetta verður skemmtilegur leikur en erfiður,“ sagði Hörður í samtali við Óskar Ófeig Jónsson, blaðamann Vísis, á æfingu landsliðsins í gær. „Finnarnir gerðu okkur síðast lífið leitt en við náðum sem betur fer að snúa því við á lokakaflanum,“ sagði hann enn fremur og vísaði til 3-2 sigurs Íslendinga á Finnum fyrir ári síðan.
Hann segist ávallt bjartsýnn á að fá tækifærið með íslenska landsliðinu. „Þegar það kemur verður maður að nýta það eins vel og maður getur. Ég lagði mjög hart að mér í sumar. Það er svo heldur ekki verra að fá tvö sigurmörk í röð. Vonandi heldur það áfram og við vinnum þennan leik 1-0.“
Hörður Björgvin hefur ekkert fengið að spila í fyrstu fimm deildarleikjum Bristol City í ensku B-deildinni í haust, en spilar þess í stað í deildarbikarnum. Hann var nálægt því að ganga til liðs við Rostov í Rússlandi á lánssamningi í gær en það gekk ekki í gegn, líkt og Fótbolti.net greindi frá.
„Ég á tvö ár eftir af samningi mínum við Bristol og er því rólegur. Ég ætla að einbeita mér að landsliðinu og í bili er allt annað bara aukaefni,“ sagði Hörður Björgvin á æfingunni í gær.
Arnar Björnsson ræddi einnig við Hörð Björgvin í gær og má sjá viðtal hans hér fyrir neðan.