Ákæruvaldið vinnur nú að samantekt þeirra gagna sem verða lögð fyrir Hæstarétt, í samráði við verjendur. Að því loknu verða aðilum málsins gefnir frestir til að leggja fram greinargerðir og tímasetning málflutnings í Hæstarétti verður ákveðin þegar hún liggur fyrir. „Við erum að tala um marga mánuði,“ segir Davíð Þór Björgvinsson, sérstakur saksóknari, um tímann sem undirbúningur fyrir málflutning muni taka.
Unnar Steinn hefur fylgst með allri umfjöllun um Geirfinnsmál í gegnum tíðina.

„Málið hefur mikið aðdráttarafl enda mjög margslungið og dularfullt,“ segir Unnar og bendir á að málið hafi líka margar hliðar sem komi þessum málarekstri ekki beinlínis við. „En það er ekki þar með sagt að það séu ekki hliðar á málinu sem verða dregnar fram undir rekstri málsins sem hafa ekki komið fram áður.“
„Þetta er mikið magn gagna og þýðingarmikil málskjöl hlaupa á þúsundum blaðsíðna,“ segir Unnar og bætir við að ekki sé útilokað að frekari gagnaöflun fari fram af hálfu verjenda. „Það er alveg ljóst að margvísleg gögn geta enn ratað inn í málið jafnvel þótt liðinn sé langur tími og því ekki hægt að útiloka að það verði varpað ljósi á nýjar hliðar málsins.“
Unnar segist finna til sérstakrar ábyrgðar sem verjandi Sævars.„Það er erfitt að ímynda sér mörg mál hérlendis þar sem jafnmikið er undir fyrir réttarríkið og tiltrú almennings á refsivörslukerfinu og í þessu máli. Ég hef það á tilfinningunni að allir sem eiga aðild að rekstri þessa máls finni til aukinnar ábyrgðar vegna þess. Fyrst og fremst fyrir sakborningana sjálfa og aðstandendur þeirra en líka fyrir þjóðina alla,“ segir Unnar Steinn.
Sævar lést árið 2011 án þess að sjá árangur af áratugabaráttu sinni fyrir endurupptöku málsins. „Tilfinning mín fyrir hans málarekstri er sú að þarna fór maður sem barðist fyrir sakleysi sínu allt til síðasta dags. Ég mun leggja mig allan fram við að berjast fyrir þeim málstað sem Sævar barðist fyrir og margir trúðu á og það geri ég auðvitað líka,“ segir Unnar Steinn.
Aðspurður um hvers sé að vænta í málarekstrinum og hvort vænta megi einhvers konar uppgjörs málsins, segir Unnar: „Það er mikið undir í þessu máli, enda ljóst að málið hefur legið lengi á þjóðinni og ég trúi því að við eigum, sem þjóðfélag í réttarríki að læra af því sem fór úrskeiðis í málsmeðferðinni hingað til. En fyrst þarf auðvitað að ná fram afdráttarlausri niðurstöðu um sakleysi sakborninganna. Um það snýst málareksturinn sem er fram undan.“