Markið kom strax eftir átta mínútna leik. Þrátt fyrir að hafa nægan tíma og vera miklu meira með boltann tókst íslenska liðinu ekki að brjóta finnsku vörnina á bak aftur. Ísland fékk fá færi í leiknum og átti aðeins tvo skot á finnska markið.
Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson reyndi að breyta gangi mála með tvöfaldri skiptingu á 59. mínútu. Sautján mínútum síðar fékk annar varamannanna, Rúrik Gíslason, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot í kjölfar þess að hann missti boltann klaufalega frá sér.
Eftir brottreksturinn opnuðust stór svæði í vörn Íslendinga sem Finnar voru nálægt því að nýta sér. Mörkin urðu þó ekki fleiri og finnska liðið fagnaði sínum fyrsta sigri í undankeppninni.
„Þetta var jafn leikur. En þeir voru yfir í baráttunni, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir mættu grjótharðir til leiks og felldu okkur svolítið á eigin bragði,“ sagði Reynir Leósson þegar Fréttablaðið leitaði álits hans á leiknum og frammistöðu íslenska liðsins í honum.

Þótt uppskera finnska liðsins í undankeppninni hafi verið rýr er ýmislegt í það spunnið. Íslendingar fengu svo sannarlega að kynnast því, bæði í leiknum á Laugardalsvelli fyrir ári, þar sem Finnar komust tvisvar yfir en enduðu á því að tapa 3-2, og í Tampere á laugardaginn.
„Finnar eru ekki lélegir í fótbolta, það er langur vegur frá. Engu að síður erum við með töluvert betra lið og töluvert betri leikmenn í flestum leikstöðum. Á okkar degi eigum við að vinna finnska liðið,“ sagði Reynir.
Heimir hélt sig við sama byrjunarlið og í sigrinum á Króatíu í júní. Emil Hallfreðsson var við hlið Arons Einars Gunnarssonar á miðjunni og Gylfi Þór Sigurðsson aðeins fyrir aftan Alfreð Finnbogason í framlínunni. Reynir hefði viljað sjá Gylfa spila með Aroni á miðjunni, eins og hann hefur gert undanfarin ár, og annan framherja með Alfreð.

„Mér fannst við of varfærnir. Ég hefði viljað hafa Gylfa neðar á vellinum, til að komast fyrr í boltann. Mér finnst íslenska liðið virka best þegar hann spilar inni á miðjunni með Aroni. Miðað við leikstílinn okkar, og hvernig Kári [Árnason] og Ragnar [Sigurðsson] spila út úr vörninni, finnst mér við verða að vera með stærri mann með Alfreð frammi. Við erum oft að lyfta boltanum fram og það er ekki leikurinn fyrir Alfreð og Gylfa,“ sagði Reynir.
„Ég hefði viljað sjá Jón Daða [Böðvarsson] eða Björn Bergmann [Sigurðarson] byrja leikinn. Við erum ekkert verri varnarlega með þá. Þeir eru báðir duglegir og vinnusamir. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en mér fannst uppstillingin ekki virka.“
Alfreð átti ekki góðan leik gegn Finnum, gekk bölvanlega að halda boltanum og missti hann alltof oft. Það ber þó að nefna að Alfreð fékk litla vernd frá slökum tékkneskum dómara. Hann fékk olnbogaskot í fyrri hálfleik og þá slapp Robin Lod með gult spjald þegar hann fór með takkana í legginn á Alfreð.

„Alfreð myndi held ég blómstra með annaðhvort Jóni Daða eða Birni Bergmann. Í okkar leikstíl finnst mér hann ekki henta einn uppi á topp,“ sagði Reynir.
„Þótt Gylfi hafi verið með honum þarna er hvorugur þeirra þannig leikmaður að þeir séu góðir í því að fá lengri sendingar eða vinna mikið með mann í bakinu. Við viljum að Gylfi snúi fram þegar hann fær boltann. Hann er okkar langbesti leikmaður og það er lykilatriði að hann fái boltann sem oftast.“
Risaleikur annað kvöld
Eftir úrslitin í I-riðli um helgina er ljóst að toppsætið er nánast runnið Íslandi úr greipum.
Íslendingar eru sem stendur einu stigi á eftir Úkraínumönnum sem sitja í 2. sætinu en þessi lið mætast í gríðarlega mikilvægum leik á Laugardalsvellinum annað kvöld.
„Núna er stefnan sett á 2. sætið. Þetta er risaleikur. Ég átti ekkert endilega von á því að Ísland myndi berjast um HM-sæti eftir frábært EM. Maður hélt að þynnkan kæmi. En strákarnir hafa spilað ótrúlega vel í þessari keppni og það er stutt í að ná í þetta 2. sæti,“ sagði Reynir að lokum.