Erlent

Standa frammi fyrir „mjög miklum hamförum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Áhrifa Harvey er þegar farið að gæta við strendur Texas.
Áhrifa Harvey er þegar farið að gæta við strendur Texas. Vísir/Getty
Íbúar Texas-ríkis Bandaríkjanna standa frammi „mjög miklum hamförum“ eftir því sem fellibylurinn Harvey fikrar sig nær ströndum ríkisins.

Þetta segir Greg Abott, ríkisstjóri Texas, sem varað hefur íbúa ríkisins við fellibylnum.

Abott hefur óskað eftir fjárstuðningi frá alríkisstjórninni og í bréfi sem hann skrifaði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í dag sagði hann að fellibylurinn myndi vilda tjóni upp á milljarða bandaríkjadollara auk þess sem að mjög líklega myndi mannfall verða.

Gríðarleg úrkoma er sögð fylgja fellibylnum, allt að 50 sentímetrar. Fólk hefur verið beðið um að rýma strandsvæði við Mexíkóflóa þar sem hætta er á sjávar- og skyndiflóðum.

Harvey hefur vaxið með undraverðum hraða síðustu sólarhringa. Óttast er að í kjölfar hans muni lífshættuleg flóð flæða yfir strandsvæði í Mexíkó-flóa.

Fellibylurinn er þegar farinn að láta til sín taka en búast má við að hann skelli á Texas-ríki af fullu afli seint í kvöld og í nótt. Hér á neðan má sjá gagnvirkt veðurspákort sem sýnir svæðið þar sem búist er við að áhrifa Harvey muni gæta hvað mest.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×