Fótbolti

Fótbrotnaði eftir samstuð við samherja og missir af stærstu leikjunum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karen Bardsley og Steph Houghton.
Karen Bardsley og Steph Houghton. Vísir/Getty
Það er alltaf slæmt að meiðast og missa af stærstu leikjum ferilsins en hvað þá að meiðast eftir högg frá samherja sínum.

Enski markvörðurinn Karen Bardsley missir þannig að undanúrslitaleiknum og mögulega úrslitaleiknum á EM kvenna í fótbolta þar sem að hún er fótbrotin.

Mark Sampson, þjálfari enska landsliðsins, staðfesti að Karen Bardsley hafi í raun fótbrotnað eftir samstuð við liðsfélaga hennar Steph Houghton.  BBC segir frá.

Atvikið gerðist í leik Englands og Frakklands í átta liða úrslitunum og Karen Bardsley spilaði í tíu mínútur fótbrotin.

„Þetta var alvöru högg en þetta voru mistök hjá Steph,“ sagði Mark Sampson. Houghton og Bardsley leika ekki aðeins saman hjá enska landsliðinu heldur eru þær einnig samherjar hjá Manchester City.

Steph Houghton er fyrirliði enska landsliðsins en hin skoska Jane Ross missti líka af restinni á Evrópumótinu eftir að hafa lent í samstuði við Houghton í fyrsta leik. Ross var mótherji Houghton í þeim leik en þær eru hinsvegar samherjar hjá Manchester City.

Liverpool-markvörðurinn Siobhan Chamberlain mun standa í enska markinu í undanúrslitaleiknum á móti Hollandi á morgun. Chamberlain lék síðustu fimmtán mínúturnar á móti Frökkum.

Þetta er í annað skiptið sem Karen Bardsley meiðist á stórmóti en Bardsley meiddist líka í leik í átta liða úrslitum HM í Kanada 2015. Þá kom  Chamberlain einnig inná fyrir hana.

Meiðsli Bardsley fyrir tveimur árum voru hinsvegar ekki það alvarleg og hún gat spilað undanúrslitaleikinn. Svo er hinsvegar ekki raunin núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×