Vikar Jónasson, GK, og Karen Guðnadóttir, GS, stóðu uppi sem sigurvegarar á Borgunarmótinu sem fram fór á Keili í Hafnarfirði í dag, en mótið er hluti af Eimskipsmótaröðinni.
Vikar var að vinna sitt annað mót í sumar, en í þetta skiptið þurfti bráðabana til að leggja Guðmund Ágúst Kristjánsson, GR, að velli. Hann gerði það á fyrstu holu bráðana, en þeir voru jafnir (-4) eftir hringina þrjá.
Axel Bóasson endaði í þriðja sætinu, en hann var höggi á eftir þeim Guðmundi Ágústi og Vikari.
Karen Guðnadóttir vann í kvennaflokki, en hin 14 ára gamla Kinga Korpak, GS, var efst fyrir daginn í dag. Kinga spilaði á 88 höggum í dag, fjórtan höggum verr en Karen og Karen endaði sem sigurvegari á 11 höggum yfir pari.
Anna Sólveig Snorradóttir, GK, endaði í öðru sæti á þrettán höggum yfir pari og þær Helga Kristín Einarsdóttir og Kinga enduðu í þriðja til fjórða sæti.
