Eftir smá skokk og styrktaræfingar var komið að því að fara í reitabolta og þar voru tveir úr starfsliðinu með stelpunum á æfingunni.
Í öðrum reitnum var Laufey Ólafsdóttir, fyrrverandi landsliðskona, sem er nú önnur af tveimur liðsstjórum íslenska liðsins. Laufey spilaði 26 landsleiki og var í hópnum sem keppti á EM í Svíþjóð fyrir fjórum árum.

Reitaboltasambandið
Laufey er uppalin Valsari og spilaði stærstan hluta ferilsins á Hlíðarenda þar sem hún vann fjöldan allan af Íslands- og bikarmeistaratitlum.Í hinum reitnum var Ásmundur Guðni Haraldsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, en hann er fyrrverandi leikmaður KR og kom til dæmis inn á í einum frægasta leik Íslandssögunnar þegar ÍA vann KR, 4-1, í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 1996.
Enginn á Íslandi er meiri áhugamaður um reitabolta en Ásmundur en hann fer fyrir Reitaboltasambandi Íslands sem gaf út kennslumyndband fyrir nokkrum árum um þessa göfugu upphitun. Það bráðskemmtilega myndband má sjá hér að neðan.
Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook og Twitter.