„Íslendingar eru frægir fyrir grófar tæklingar og hefðu jafnvel getað fengið eitt til tvö rauð spjöld gegn Frakklandi,“ sagði Voss-Tecklenburg. Telja má líklegt að atvikin sem Voss-Tecklenburg eigi við séu tæklingar Sigríðar Láru Garðarsdóttur og Ingibjargar Sigurðardóttur í fyrri hálfleiknum.
Vanessa Bernauer, samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg, segir að mögulega ræði þær við dómarann fyrir leikinn varðandi þetta.
„Það sem skiptir mestu máli er að vera sjálfar harðar og jafna það sem íslensku stelpurnar gera,“ sagði Bernauer.

„Við erum góðar í að taka við, en líka í að gefa,“ sagði miðvörðurinn og bætti við að liðið yrði að spila eins fast og dómarinn leyfði.
Þær voru spurðar út í stuðningsmenn Íslands sem vöktu athygli í leiknum gegn Frakklandi. Þær stöllur gáfu ekkert sérstaklega mikið fyrir stuðninginn, hann myndi ekki hafa áhrif á þær enda væru þær vanar miklum áhorfendafjölda frá leikjum Sviss á HM í Kanada fyrir tveimur árum.
Bernauer fékk spurningu um samherja sinn, Söru Björk. Hún fór fögrum orðum um Söru, sagði hana hjartað í íslenska liðinu og það væri öllum augljóst hvað hún væri orkumikill leikmaður.