Fótbolti

Guðbjörg: Ef einhver hnerraði einhvers staðar þá var aukaspyrna

Elías Orri Njarðarson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð vaktina í marki Íslands í 2-1 tapi á móti Sviss á Evrópumótinu í Hollandi. Ísland fékk á sig tvö mörk í leiknum en aðspurð um mörkin fannst henni þau vera mjög álíka. Guðbjörg fór yfir mörkin með Tómasi Þór Þórðarsyni eftir leik.

„Þau voru mjög álíka hvor öðru, þær komast upp að endalínu og gefa boltann út og skora. Í fyrra markinu veit ég ekki hvort ég átti að vera sneggri að koma út. Þetta er svo týpískt svona; boltinn fer í olnbogann á mér og niður, ég sá ekki hvernig hann fór inn, ég var með á tilfinningunni að ég hafi náð að halda boltanum réttu megin við línuna en eins og margt annað í þessu móti þá fellur það bara ekki með okkur. Svo átta ég mig ekki á hvað gerðsist í öðru markinu, ég geri mér ekki grein fyrir hvernig ég var staðsett, hvort ég hafi átt að vera framar eða aftar, ég þarf bara að sjá þetta á vídeói,“ sagði Guðbjörg.

Leikurinn var kannski ekki alveg sá skemmtilegasti til að horfa á en dómari leiksins eyddi oft miklum tíma í að stoppa leikinn en Guðbjörg var sammála því.

„Þetta var erfitt fyrir mann sem spilara, ég er í marki og leikurinn var oft stopp og það er svo erfitt að komast svona lítið í takt við boltann. Í leiknum á móti Frökkum var ég af og til að taka niður fyrirgjafir og var miklu meira inn í leiknum allan tímann, ég held að ég hafi ekki snert boltann fyrsta korterið í leiknum. Þegar að þær skora fyrsta markið er ég varla búin að snerta boltann með höndum. Þá er erfitt að halda fókus og auðvitað vill maður geta bjargað liðinu þegar á því þarf, þannig að mér fannst þetta hrikalega erfiður leikur til að spila og finnst ég einhvernvegin ekki hafa getað gert hrikalega mikið en ég fékk á mig tvö mörk og gerði einhvernveginn ekki neitt. Þannig þetta var erfitt,“ sagði Guðbjörg.

Leikmenn Sviss náðu oft í leiknum að plata dómara leiksins í gildrur og fengu ódýrar aukaspyrnur með því að fleygja sér niður á völlinn við litla hrifningu Íslendinga.

„Ég er eiginlega bara alveg orðlaus yfir hvernig þessi leikur var - hann var stopp jafn mikið og boltinn var í leik. Ef boltinn var í leik þá var það útaf því að það var útspark eða innkast. Þetta var ekki fínn fótbolti. Upplifunin var þannig að t.d. ef að Sif var að taka innkast, þá var bara búið að flauta áður en að Sif væri búin að kasta boltanum og enginn sá afhverju, þannig mér leið nánast eins og að ef einhver hnerraði einhvers staðar þá var aukaspyrna. Við vorum ekki alveg með dómarann á okkar bandi en það er ekki okkar stíll að vera að klaga í dómarann en hann var allavega ekki með okkur í dag,“ sagði Guðbjörg eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×