Fótbolti

Matthías skaut Rosenborg áfram í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson hefur raðað inn mörkum á leiktíðinni en fá hafa verið mikilvægari en markið hans í kvöld.
Matthías Vilhjálmsson hefur raðað inn mörkum á leiktíðinni en fá hafa verið mikilvægari en markið hans í kvöld. Vísir/Getty
Norsku meistararnir í Rosenborg eru komnir áfram í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu eins og Íslandsmeistarar FH.

Norðmennirnir geta þakkað íslenskum framherja liðsins að félagið komst áfram í kvöld.

Rosenborg vann þá 2-1 sigur á írska félaginu Dundalk eftir framlengdan leik og þar með 3-2 samanlagt. Þessi leikur fór fram á heimavelli Rosenborg en liðin gerðu 1-1 jafntefli út í Írlandi.

Matthías Vilhjálmsson kom inná sem varamaður og skoraði sigurmark Rosenborg eftir átta mínútna leik í framlengingunni. Matthías skoraði markið með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf.

Brian Gartland kom Dundalk í 1-0 strax á 12. mínútu en Yann-Erik de Lanlay jafnaði fyrir Rosenborg rétt fyrir hálfleik. Matthías kom sem síðan inn á völlinn á 72. mínútu þegar staðan var ennþá 1-1.

Ekkert var skorað það sem eftir lifði venjulegs leiktíma en úrslitin réðustu svo í fyrri hluta framlengingarinnar þar sem íslenski framherjinn var réttur maður á réttum stað eins og svo oft í sumar.

Matthías hefur skorað 15 mörk fyrir Rosenborg í öllum keppnum á leiktíðinni þrátt fyrir að hafa aðeins byrjað inná í 10 leikjum liðsins.

Rosenborg mætir vað öllum líkindum Celtic frá Skotlandi í næstu umferð Meistaradeildarinnar.  Celtic vann fyrri leikinn 2-0 á móti Linfield og er 1-0 yfir í hálfleik í seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×