Þrumuveður gekk yfir Chicago í gærkvöldi og því náðu ekki allir kylfingar að klára síðustu holurnar á PGA-meistaramóti kvenna á Olympia Fields-vellinum í gærkvöldi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á meðal þátttakenda. Eftir öfluga byrjun tapaði hún höggum á seinni níu holunum og var í 110. sæti þegar hún kom í mark.
Eftir því sem leið á daginn færðist hún hins vegar ofar töfluna og endaði daginn í 88. sæti, aðeins einu höggi frá niðurskurðinum. Möguleikar hennar á því að komast áfram eru því enn góðir.
Sjá einnig: Ólafía: Átti í rauninni aðeins eitt slæmt högg í dag
Það var afar vindasamt undir lok keppnisdagsins og nokkrir kylfingar náðu ekki að klára hringinn sinn og gera það í upphafi annars keppnisdags.
Chella Choi og Amy Yang, báðar frá Suður-Kóreu, eru í forystu á fimm höggum undir pari en Yang á enn eftir að spila eina holu.
Enn er óstaðfest hvenær Ólafía hefur keppni í dag en fylgst verður náið með gangi mála á Vísi.
Útsending hefst frá mótinu á Golfstöðinni klukkan 16.30 í dag.
