Þá sagði Tusk að markmið Evrópusambandsins væri að tryggja full réttindi allra borgara þess sem og réttindi Breta á meginlandinu. „Tilboðið felur í sér hættu á því að staða umræddra borgara versni,“ sagði Tusk við blaðamenn.
Samningstilboðið var kynnt á fundi í Brussel á fimmtudag. Í því er meðal annars kveðið á um að þær nærri þrjár milljónir borgara Evrópusambandsins sem búa í Bretlandi fái að vera þar áfram eftir Brexit. Hafi þeir verið í Bretlandi í fimm ár eða lengur muni þeir fá jafnan aðgang að breska heilbrigðis- og menntakerfinu og ýmissi annarri þjónustu. Það ákvæði er hins vegar háð því að hið sama muni gilda um Breta á meginlandinu.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði tilboðið „ágætis byrjunarreit“. Hins vegar væri mörgum spurningum um Brexit enn ósvarað og talsverða vinnu ætti enn eftir að ráðast í.

Ýmsir tóku þó í sama streng og Tusk í gær. Þannig sagði Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, að hætta væri á því að borgarar Evrópusambandsins mættu annars konar meðferð en Bretar. „Allir í Evrópu vilja sanngjarna meðferð fyrir alla okkar ríkisborgara,“ sagði Muscat.
Opinber afstaða Evrópusambandsins í málinu er sú að borgarar þess eigi að halda áfram að njóta sömu réttinda og Bretar svo lengi sem þeir lifa. Yrði það ekki virt myndi Evrópudómstóllinn hafa lögsögu í slíkum málum. Bretar vilja hins vegar að breska dómskerfið sjái um þau mál.
Í gær sagði May að einkar jákvæð umræða hefði farið fram á milli Breta og annarra Evrópusambandsríkja um tilboðið. Hins vegar viðurkenndi hún að enginn einhugur væri um hvernig væntanlegum samningi yrði framfylgt. Ítrekaði hún að „hinir háttvirtu dómstólar Bretlands“ hefðu lögsögu í umræddum málum.
„Til að vera alveg skýr þá munu umræddir borgarar Evrópusambandsins á Bretlandi fá að vera þar áfram og við munum tryggja réttindi þeirra. Mér finnst tilboð okkar afar vandlega íhugað og málið mun nú þróast áfram í samningaviðræðum,“ sagði forsætisráðherrann breski.
Anne-Laure Donskoy, stofnandi samtakanna 3million sem hafa þann yfirlýsta tilgang að vernda réttindi þeirra þriggja milljóna Evrópusambandsborgara sem búa í Bretlandi, sagði við BBC að tilboð Breta ylli vonbrigðum og væri langt undir væntingum samtakanna. „Tilboðið er hvorki sanngjarnt né vandlega íhugað,“ sagði Donskoy.