Þýska blaðið Bild hefur komist yfir skýrslu FIFA sem var grafin fyrir þrem árum síðan en hún fjallar um hvernig forráðamenn frá Katar mútuðu forráðamönnum FIFA í von um að fá HM árið 2022. Það gekk upp.
Það var Bandaríkjamaðurinn Michael Garcia sem vann skýrsluna en hún er upp á 403 blaðsíður. Bild ætlar að birta hana alla saman. Garcia hætti hjá siðanefnd FIFA sama ár og skýrslan kom út.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að tíu ára dóttir forráðamanns FIFA fékk rúmar 212 milljónir króna inn á bankareikning sinn.
Einnig kemur fram í skýrslunni að þremur háttsettum FIFA-mönnum hafi verið flogið í einkaþotu til Ríó en meðlimir knattspyrnusambands Katar áttu þotuna.
Margt áhugavert á örugglega eftir að koma í ljós á næstu dögum er Bild heldur áfram að birta úr skýrslunni.

