Búið er að yfirheyra alla sakborninganna í manndrápsmálinu í Mosfellsdal aftur að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Alls voru sex manns handteknir í síðustu viku og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, fimm karlar og ein kona. Mennirnir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. júní en gæsluvarðhaldið yfir konunni rennur út á morgun. Grímur segir að ekki liggi fyrir hvort farið verði fram á áframhaldandi varðhald yfir henni en sakborningarnir eru allir í einangrun.
„Það var einn sakborningur yfirheyrður um helgina og svo hinir fimm í gær og í dag þannig að það er búið að yfirheyra þau öll tvisvar,“ segir Grímur.
Aðspurður hvort játning einhverra liggi fyrir segist Grímur ekki vilja fara út í það hvað hafi komið fram í yfirheyrslum.
Sexmenningarnir sitja í gæsluvarðhaldi grunuð um aðild að manndrápi en karlmaður á fertugsaldri lést í kjölfar hrottalegrar líkamsárásar sem hann varð fyrir við heimili sitt að Æsustöðum í Mosfellsdal. Grímur segir að dánarorsök mannsins liggi ekki fyrir og kveðst eiga ekki von á því að hún liggi endanlega fyrir fyrr en eftir einhvern tíma.
Manndráp í Mosfellsdal: Búið að yfirheyra alla sakborninga aftur

Tengdar fréttir

Manndráp í Mosfellsdal: Lögregla efast um að öll hin grunuðu hafi þekkt hinn látna
Engar yfirheyrslur hafa farið fram yfir sexmenningunum sem grunuð eru um að hafa orðið Arnari Jónssyni Aspar að bana á miðvikudagskvöld.

Reyndu að samræma framburð
Sakborningunum í morðmálinu í Mosfellsdal ber öllum saman í einu veigamiklu atriði við yfirheyrslur. Framburður þeirra er að öðru leyti á reiki. Búið var að velja nafn á nýfædda dóttur hins látna.

Í einangrun á Hólmsheiði
Engar yfirheyrslur fóru fram yfir sex einstaklingum sem sitja nú í gæsluvarðhaldi, grunaðir um manndráp í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld, í gærkvöldi eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurði sína varðandi varðhald.