Fyrir hryðjuverkin í London á laugardagskvöld hafði dregið mjög saman á milli Íhaldsflokks Theresu May forsætisráðherra og Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum. Lilja segir að hryðjuverkin hafi hleypt frekari hörku í kosningabaráttuna og muni hafa áhrif á kosningarnar.
Þannig hafi May talað um að breyta hvernig Bretar taki á hryðjuverkamálum og beint spjótum sínum að löndum eins og Sýrlandi og Írak. Corbyn hafi aftur á móti krafist afsagnar May, meðal annars vegna þess að hún lét 20.000 lögreglumenn fara í niðurskurði þegar hún var innanríkisráðherra.
Öfgaíslamistar hafi ekki dagskrárvaldið
Lilja er hins vegar uggandi yfir því að voðaverk af þessu tagi hafi áhrif á kosningar.
„Þetta mál er orðið stóra málið en kannski viljum við einmitt ekki gera það. Það er það sem vestrænir leiðtogar hafa verið að segja. Þeir eiga ekki, þessir öfgaíslamistar, að hafa dagskrárvaldið en Bretar, þeir hafa svolítið gert það í dag,“ sagði þingmaðurinn.
Spurð að því hvers vegna Bretland sé nú ítrekað skotspónn hryðjuverkamanna frekar en til dæmis Bandaríkin segir Lilja að hægt sé að draga þá ályktun af nýlegum árásum að öryggisgæsla sé öflugari vestanhafs.
„Þetta er örugglega eitthvað sem verður rætt hvort að það þurfi að líta frekar í átt til Bandaríkjanna hvað þetta varðar,“ segir Lilja.