Fótbolti

Látinn fara frá Roma eftir stiga- og markamet

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luciano Spalletti er atvinnulaus.
Luciano Spalletti er atvinnulaus. vísir/getty
Roma hefur ákveðið að semja ekki aftur við Luciano Spalletti þrátt fyrir að þjálfarinn skilaði liðinu í annað sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Forráðamenn Rómarliðsins tilkynntu þetta eftir að það vann Genoa, 3-2, í lokaumferð deildarinnar á sunnudaginn en sigurinn tryggði liðinu annað sætið og þannig sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Spalletti, sem var að þjálfa Roma öðru sinni á ferlinum, setti bæði stiga- og markamet hjá liðinu á leiktíðinni. Rómverjar enduðu með 87 stig, fjórum stigum minna en meistarar Juventus, og skoruðu 90 mörk.

Spalletti tók við liðinu á ný fyrir 16 mánuðum síðan en þrátt fyrir þennan frábæra árangur telja forráðamenn félagsins að hann sé ekki maður framtíðarinnar í Rómarborg.

„Við viljum þakka Spalletti fyrir allt það sem hann hefur lagt á sig og árangurinn síðan hann kom aftur. Félagið er alltaf að þróast og við viljum halda því áfram með ráðningu nýs þjálfara sem deilir hugmyndafræði okkar,“ segir í fréttatilkynningu Roma.

Spalletti hefur verið mikið gagnrýndur fyrir að geyma goðsögnina Francesco Totti á bekknum á þessari leiktíð en hann stýrði áður Roma frá 2005-2009 og vann þá ítalska bikarinn í tvígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×