Heimamenn í Sirius náðu forustunni í leiknum þegar Niklas Thor skaut nokkuð hættulausu skoti á markið en Ögmundur lagðist niður og varði boltann yfir sig og í netið. Fredrik Torsteinbö jafnaði metin fyrir Hammarby á 45. mínútu, 1-1, og þar við sat.
Michelsen kom Ögmundi ekki til varnar eftir leik. Þvert á móti hrinti hann markverðinum undir rútuna og kenndi honum ekki bara um þetta mark heldur meira og minna síðustu mörk sem liðið hefur fengið á sig.
„Ögmundur hefur staðið sig betur en hann hefur gert undanfarið. Ég sagði það líka við hann eftir síðasta leik. Hann verður að fara að rífa sig í gang. Hann hefur með beinum hætti átt sök á síðustu fimm mörkum sem við höfum fengið á okkur,“ sagði Michelsen við Aftonbladet eftir leikinn í gær.
„Ég krefst meira frá landsliðsmarkverði Íslands og leikmanni sem hefur farið á Evrópumeistaramót. Maður setur einfaldlega meiri kröfur á svona leikmenn,“ segir Jakob Michelsen.
Markið klaufalega sem Ögmundur fékk á sig í gær má sjá hér að neðan.