Aron Sigurðarson skoraði sigurmark Tromsö þegar liðið vann Rosenborg, 1-2, á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Tromsö varð þar með fyrsta liðið á tímabilinu til að vinna Rosenborg sem hefur orðið norskur meistari undanfarin tvö ár.
Matthías Vilhjálmsson var í byrjunarliði Rosenborg og hann kom liðinu yfir á 20. mínútu. Þetta var annað mark Matthíasar á tímabilinu.
Gestirnir frá Tromsö gáfust ekki upp og Mikael Ingebrigtsen jafnaði metin mínútu fyrir hálfleik.
Fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Aron svo sigurmark Tromsö. Þetta var fyrsta mark Fjölnismannsins á tímabilinu og það gat ekki komið á betri tíma.
Eftir sigurinn er Tromsö í 9. sæti deildarinnar með 12 stig. Rosenborg er áfram á toppnum en núna aðeins tveimur stigum á undan Odds Ballklubb sem er í 2. sæti.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var einnig á skotskónum í norsku kvennadeildinni.
Garðbæingurinn skoraði þá fyrra mark Vålerenga í 0-2 útisigri á Kolbotn. Gunnhildur Yrsa og stöllur hennar eru í 5. sæti deildarinnar.
Aron tryggði Tromsö sigur á meisturunum

Tengdar fréttir

Viðar Ari skoraði framhjá Ingvari í frumrauninni
Viðar Ari Jónsson og Björn Bergmann Sigurðarson voru báðir á skotskónum í norsku úrvalsdeildinni í dag.