Bandaríkjamaðurinn Charley Hoffman er með forystu eftir fyrsta daginn á Mastersmótinu á Augasta-vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum.
Hoffman lék hringinn í dag á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari. Hann fékk alls níu fugla á holunum átján.
Hoffman er með fjögurra högga forystu á landa sinn, William McGirt. Englendingurinn Lee Westwood er svo í 3. sæti á tveimur höggum undir pari.
Kappar eins og Phil Mickelson, Justin Rose og Sergio Garcia eru svo á einu höggi undir pari.
Danny Willett, sem vann Mastersmótið í fyrra, er á einu höggi yfir pari.
Jordan Spieth, sem vann Mastersmótið 2015 og lenti í 2. sæti 2014 og 2016, náði sér ekki á strik í dag og er á þremur höggum yfir pari.
Efsti maður heimslistans, Dustin Johnson frá Bandaríkjunum, dró sig úr keppni vegna meiðsla.
