Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur og sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, hefur verið ráðinn íþróttastjóri Golfklúbbsins Leynis á Akranesi. Þetta kemur fram á heimasíðu Leynis.
Birgir Leifur er uppalinn Skagamaður og keppti fyrir Leyni fram til ársins 1997 er hann gekk í raðir GKG.
Birgir Leifur mun hafa umsjón með allri þjálfun hjá Leyni en hann er menntaður PGA golfkennari frá PGA golfkennaraskólanum á Íslandi.
Meðfram starfi sínu hjá Leyni heldur Birgir Leifur áfram að keppa sem atvinnumaður á Áskorendamótaröðinni (European Challenge Tour) þar sem hann er með keppnisrétt.
„Ég hlakka mikið til að fá að taka þátt í að móta og byggja upp íþróttastarf míns gamla heimaklúbbs GL samhliða því að vera í atvinnumennskunni. Á Akranesi er mikil íþróttahefð og hefur bæjarfélagið og stjórn GL mikinn metnað að móta aðstæður sem eru til fyrirmyndar og munu auðvelda að gera gott starf enn betra,“ sagði Birgir Leifur.
„Að sögn Agnars Más Jónssonar framkvæmdastjóra GKG þá segir hann alla vita sem koma að golfíþróttinni hve mikill metnaður er varðandi þá þætti á Akranesi og því er það ánægjulegt fyrir okkur GKG-inga að geta unnið að þessum hlutum í sameiningu með Birgi Leif og Golfklúbbnum Leyni,“ segir á heimasíðu Leynis.
