Tilefnið var alþjóðlegur dagur fólks með Downs-heilkennið.
Ólafur á fimm ára son, Viktor Skúla, sem er með Downs-heilkenni og þegar hann stakk upp á því að þetta yrði gert var því vel tekið innan hópsins.
„Þetta stendur mér nærri. Við þurfum öll að fagna fjölbreytileikanum og það breytti mínu lífi til hins betra að eignast strákinn minn fyrir rétt tæpum sex árum síðan,“ segir hann.

„Það hefur verið í umræðunni með fóstureyðingar og annað þessu tengt. Ég held að það þurfi því að fræða fólk um þetta og svona dagar hjálpa til með það.“
Hann segir að það sé alltaf eitthvað um fordóma gagnvart fólki með Downs. „Ég held að það hafi mikið áunnist síðustu 5-10 ár og það er mikil vakning í samfélaginu. Það er þökk sé svona dögum þar sem málefni minnihlutahópa eru tekin upp og fólk aðeins frætt um þetta heilkenni.“
Ólafur Ingi leikur með Karabükspor í Tyrklandi og er kominn aftur í landsliðið eftir smá fjarveru en mikil meiðsli herja á landsliðshópinn. Liðið leikur gegn Kósóvó á föstudag í undankeppni Heimsmeistaramótsins.
Hann segir að eftir að Viktor Skúli hafi komið í heiminn sé gleðin ríkjandi á heimilinu. „Mitt líf er miklu ríkara en það var áður en við eignuðumst strákinn. Það þarf að fræða fólkið um hvað lífið er yndislegt.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.