Það er óhætt að segja að mótmælunum hafi rignt yfir ríkisstjórnina eftir frétt Stöðvar 2 í byrjun mánaðarins um tíu milljarða króna niðurskurð nýsamþykktrar samgönguáætlunar. Fyrstu viðbrögð ráðherra voru að mótmælin myndu engu breyta, en það varð bara til þess að auka þungann.

Stærsta fjárhæðin, 300 milljónir króna, fer í hringveginn í Berufirði með því markmiði að framkvæmdir hefjist á þessu ári og ljúki á því næsta.
200 milljónir króna verða settar í Hornafjarðarfljót sem skilaboð um að smíði nýrrar brúar hefjist sömuleiðis á þessu ári.
Dettifossvegur fær 200 milljónir aukalega sem þýðir að meira verður malbikað í ár en áður var áformað, eða fyrir alls 520 milljónir.
Vestfjarðavegur um Gufudalssveit fær 200 milljónir króna, til að tryggja að vegagerð um Teigsskóg hefjist um leið og framkvæmdaleyfi fæst, sem raunar er óvíst.
Þá fara 150 milljónir í Kjósarskarðsveg og 125 milljónir í Uxahryggjaveg, til að byggja upp tengingar milli Borgarfjarðar og Suðurlands, og loks fær Skógarstrandarvegur á Snæfellsnesi 25 milljónir króna til endurbóta á malarvegi.