Real Madrid verður án bæði Cristianos Ronaldo og Gareths Bale þegar liðið sækir Eibar heim í spænsku úrvalsdeildinni í dag.
Bale fékk tveggja leikja bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í 3-3 jafnteflinu við Las Palmas í síðustu umferð.
Ronaldo er aftur á móti meiddur en hann æfði ekki með Real Madrid í gær.
Þá er þriðji framherjinn, Álvaro Morata, í leikbanni.
Real Madrid getur komist á topp deildarinnar með sigri í leiknum á eftir. Madrídingar eru með 56 stig í 2. sæti, einu stigi á eftir toppliði Barcelona sem mætir Celta Vigo í kvöld. Real Madrid á þó leik til góða á Barcelona.
Leikur Eibar og Real Madrid hefst klukkan 15:15 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.
