Skallagrímskonur heimsækja Stjörnuna í Garðabæinn í Domino´s deild kvenna í kvöld en síðustu leikir hafa reynst nýliðunum úr Borgarnesi erfiðir.
Skallagrímur tapaði á móti Keflavík í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni og hefur síðan tapað báðum deildarleikjum sínum sem voru á móti Snæfelli og Val.
Fyrir þessa þriggja leika taphrinu hafði Skallagrímsliðið unnið ellefu leiki í röð í deild og bikar.
Þrátt fyrir þessi þrjú töp í röð er samt önnur sigurganga Borganesliðsins enn lifandi. Bikarúrslitaleikurinn var í Höllinni og síðustu tveimur deildarleikjum tapaði liðið á heimavelli sínum í Fjósinu í Borgarnesi.
Sigurganga Skallagríms á útivelli lifir því enn góðu lífi. Skallagrímskonur hafa unnið sjö síðustu útileiki sína í deildinni eða alla deildarleiki utan Borgarness frá og með 30. nóvember síðastliðnum.
Síðasta tap Skallagríms á útivelli kom á móti Snæfelli í Stykkishólmi 9. nóvember 2016 eða fyrir 105 dögum.
Leikur Stjörnunnar og Skallagríms verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 og hefst útsendingin klukkan 19.05.
Sjö sigurleikir Skallagríms í röð á útivelli
30. nóvember - 11 stiga sigur í Grindavík (72-61)
11. desember - 36 stiga sigur á Haukum á Ásvöllum (74-38)
17. desember - 6 stiga sigur í Njarðvík (78-72)
11. janúar - 13 stiga sigur á Snæfelli í Stykkishólmi (80-67)
25. janúar - 16 stiga sigur í Grindavík (83-67)
1. febrúar - 6 stiga sigur á Haukum á Ásvöllum (61-55)
4. febrúar - 13 stiga sigur í Njarðvík (73-60)
