Eftir góðan sigur á Las Palmas í síðustu umferð fengu Sverrir Ingi Ingason og félagar í Granada skell gegn Eibar í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Lokatölur 4-0, Eibar í vil.
Sverrir lék allan tímann í vörn Granada. Hann hefur leikið alla fjóra leiki liðsins síðan hann kom til þess frá Lokeren í Belgíu í síðasta mánuði.
Adrián (víti), Sergi Enrich, Ramis og Pedro León skoruðu mörk Eibar sem komst upp í 7. sæti deildarinnar með sigrinum.
Sverrir og félagar eru hins vegar í nítjánda og næstneðsta sætinu með 13 stig, fimm stigum frá öruggi sæti.
Næsti leikur Granada er gegn Real Betis á heimavelli á föstudaginn.
