Frakklandsmeistararnir gerðu sér lítið fyrir og niðurlægðu Spánarmeistarana með 4-0 sigri á sjálfan Valentínusardaginn í borg ástarinnar. PSG-liðið var betra frá upphafi til enda og verðskuldaði sigurinn.
Fyrrverandi Real Madrid-maðurinn Ángel Di María kom PSG yfir á 18. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu og þýski miðjumaðurinn Julian Draxler tvöfaldaði forskotið á 40. mínútu leiksins.
Draxler er búinn að byrja frábærlega hjá PSG en hann var keyptur til liðsins í janúar frá Wolfsburg. Þetta er fimmta markið hans í átta leikjum síðan hann gekk í raðir Frakklandsmeistaranna í byrjun árs.
Barcelona var enn þá inn í einvíginu og rúmlega það þrátt fyrir að vera bara 2-0 undir en Katalóníuliðið náði sér aldrei í gang og fékk á sig tvö mörk til viðbótar í seinni hálfleik.
Ángel Di María skoraði aftur með frábæru skoti fyrir utan teig eftir að heimamenn unnu boltann á miðjum vellinum og þeyttust fram. Edison Cavani innsiglaði svo 4-0 sigur með góðu skoti úr teignum og þar við sat.
Samuel Umtiti var hársbreidd frá því að minnka muninn í 4-1 þegar skalli hans small í sláni en ljóst er að Börsungar eru heldur betur með bakið upp við vegg fyrir seinni leikinn.
Þetta er jöfnun á stærsta tapi Barcelona frá upphafi í Meistaradeildinni. Börsungar töpuðu 4-0 fyrir Bayern 2013 og einnig með sama mun í frægum úrslitaleik á móti AC Milan árið 1994.