Valdís Þóra Jónsdóttir fór vel af stað þegar hún lék sinn fyrsta hring á Evrópumótaröðinni í golfi.
Hún lék á tveimur höggum undir pari á Oates Vic Open í Ástralíu sem er fyrsta mót ársins á mótaröðinni. Hún er ásamt tólf öðrum kylfingum í 22. sæti mótsins.
Valdís Þóra tryggði sér þátttökurétt á mótaröðinni er hún hafnaði í öðru sæti á úrtökumótaröðinni í desember.
Valdís Þóra fékk aðeins einn skolla í nótt en þrjá fugla. Hún var á tveimur undir pari eftir fyrri níu eftir fugla á fimmtu og áttundu holu.
Hún fékk svo skolla á sautjándu en náði að laga stöðuna á nýjan leik með fugl á átjándu og síðustu holu vallarins.
Alls keppa 144 keppendur á mótinu og staða Valdísar Þóru því góð. Um 70 efstu keppendur komast áfram í gegnum niðurskurðinn að loknum tveimur fyrstu keppnisdögunum.
